Breiðablik hefur kallað Dag Örn Fjeldsted til baka úr láni frá Grindavík samkvæmt öruggum heimildum 433.is.
Dagur er fæddur árið 2005 og þykir mikið efni. Sýndi hann til að mynda nokkra góða spretti með Blikum á undirbúningstímabilinu í vetur.
Var hann svo lánaður til Grindavíkur í Lengjudeildinni í byrjun tímabils til að fá meiri spiltíma í Meistaraflokki.
Kantmaðurinn ungi kom við sögu í þrettán leikjum Grindavíkur á tímabilinu.
Nú er ljóst að hans síðasti leikur fyrir Grindavík kom gegn Aftureldingu í gær. Þar kom hann inn á sem varamaður og spilaði síðustu 20 mínúturnar í mikilvægum 1-2 sigri á toppliðinu.
Breiðablik er í þriðja sæti Bestu deildarinnar, 13 stigum á eftir toppliði Víkings, auk þess sem liðið er í fullu fjöri í Evrópu.