Enska knattspyrnusambandið hefur ákært Harry Toffolo, leikmann Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni, fyrir 375 brot á veðmálareglum.
Brotin eiga að hafa átt sér stað frá janúar 2014 til mars 2017. Þá var Toffolo á mála hjá Norwich en lék víða á láni í neðri deildunum einnig.
Toffolo hefur til 19. júlí til að bregðast við ákærunum.
Leikmaðurinn gekk í raðir Forest síðasta sumar frá Huddersfield og spilaði 21 leik á sínu fyrsta tímabili.
Fréttirnar af brotum hans á veðmálareglunum koma aðeins nokkrum mánuðum eftir að Ivan Toney, leikmaður Brentford, var dæmdur í átta mánaða bann frá fótbolta fyrir 262 brot á veðmálareglum.