Það er útlit fyrir að Steven Gerrard takist ekki að landa skotmarki sínu og fyrrum liðsfélaga, Jordan Henderson, til Al-Ettifaq.
Gerrard tók við sem stjóri liðsins á dögunum og ætlaði Liverpool goðsögnin að ná í Henderson.
Fjöldi stjörnuleikmanna hefur farið til Sádi-Arabíu undanfarið en ætlar hinn 33 ára gamli Henderson ekki að fara að fordæmi þeirra ef marka má nýjustu fréttir. Telur hann ekki rétt að fara til Sádí á þessu stigi ferilsins.
Gerrard hefur þó einnig augastað á fleiri stjörnum úr ensku úrvalsdeildinni.
Má þar nefnda Pierre-Emerick Aubameyang, sem átti vonbrigðartímabil hjá Chelsea í fyrra. Þessi fyrrum fyrirliði Arsenal fer líklega frá Stamford Bridge í sumar.
Þá hefur Gerrard einnig rætt við Wilfried Zaha, sem er fáanlegur á frjálsri sölu eftir að samningur hans við Crystal Palace rann út.