Kapphlaup Arsenal og Manchester City um þjónustu Declan Rice hjá West Ham er í fullum gangi. Hamrarnir telja leikmanninn hins vegar frekar vilja ganga í raðir fyrrnefnda félagsins.
Tveimur tilboðum Arsenal í Rice hefur þegar verið hafnað. Það seinna hljóðaði upp á 75 milljónir punda með möguleika á 15 milljónum punda síðar meir.
City kom svo inn í kapphlaupið og bauð 80 milljónir punda auk möguleika á 10 milljónum punda síðar. West Ham hafnaði þessu einnig.
Nú er búist við þriðja tilboðinu frá Arsenal og vonar West Ham að það hljóði upp á 100 milljónir punda. Það yrði þá líklega samþykkt.
Mirror segir frá því að hjá West Ham standi menn í þeirri trú að Rice vilji frekar ganga í raðir Arsenal og vera hluti af spennandi verkefni Mikel Arteta.