Paul Pogba hefur kostað Juventus svakalegar upphæðir á þessari leiktíð ef horft er til þess hversu mikið félagið fær af þjónustu leikmannsins miðað við það sem það borgar honum í laun.
Franski miðjumaðurinn gekk í raðir Juventus á frjálsri sölu frá Manchester United síðasta sumar. Hann hefur þó lítið sem ekkert spilað vegna meiðsla.
Pogba byrjaði sinn fyrsta leik fyrir Juventus á dögunum. Hann þurfti hins vegar að fara af velli strax á 24. mínútu í 2-0 sigri gegn Cremonese. Pogba var í tárum þegar hann fór af velli.
Kappinn hefur spilað 161 mínútu í öllum keppnum, 108 í Serie A, 42 í Evrópudeildinni og 11 í bikarnum.
Þetta þýðir að Juventus hefur greitt um 65 þúsund evrur fyrir hverja mínútu sem Pogba hefur spilað. Það jafngildir næstum 10 milljónum íslenskra króna. Gazzetta Dello Sport tók saman.
Samningur Pogba rennur út eftir þrjú ár og er óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér hjá honum.