Samkvæmt enskum miðlum hefur knattspyrnumaðurinn Erling Braut Haaland skrifað undir risasamning við tískufatarisann Dolce & Gabbana.
Talið er að samningurinn sé 2 milljóna punda virði. Það jafngildir tæpum 350 milljónum íslenskra króna.
Um er að ræða fyrsta samning sem Haaland gerir við tískuvöruframleiðanda.
Haaland hefur áður verið í fötum frá Dolce & Gabbana í færslum á Instagram og virðist hann nú hafa samið við fyrirtækið.
Haaland er að eiga ótrúlegt tímabil með Manchester City. Hann hefur skorað 51 mark í öllum keppnum, sem er það mesta í sögunni hjá leikmanni í liði í ensku úrvalsdeildinni.
Þá gæti norski framherjinn farið í sögubækurnar með liði sínu einnig. City á enn fínan möguleika á að vinna þrennuna eftirsóttu, deild, bikar og Meistaradeild Evrópu.
City er svo gott sem búið að vinna kapphlaupið við Arsenal um Englandsmeistaratitilinn. Þá er liðið komið í úrslitaleik enska bikarsins þar sem andstæðingurinn verður Manchester United.
Loks mætir City stórliði Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Seinni leikurinn fer fram á Englandi á miðvikudag. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli í Madríd.