Dr Dan Plumley sem er sérfræðingur í fjármálum segir í samtali við Daily Express á Englandi mestar líkur á því að Sheik Jassim eignist Manchester United á næstu vikum. Sheik Jassim kemur frá Katar og hefur mikla fjármuni í kringum sig.
Söluferli hefur staðið yfir frá því í nóvember og búist er við að Glazer fjölskyldan taki ákvörðun um hlutina á næstu dögum.
Sheik Jassim vill kaupa allt félagið en einnig er tilboð frá Sir Jim Ratcliffe sem vill eignast helmings hlut í félaginu. „Ef verðmiðinn er í kringum 5-6 milljarða punda og Glazer fjölskyldan vill selja allt félagið, þá tel ég að tilboðið frá Katar hafi vinninginn,“ segir Plumley við Express.
„Sheik Jassim gæti komið inn með fjármuni á leiðinni til að styrkja innviði og leikmannahópinn.“
Búist er við að Glazer fjölskyldan fari að láta vita af ákvörðun sinni til að hægt sé að ganga frá öllu áður en félagaskiptamarkaðurinn opnar í sumar.