Íþróttavikan hefur hafið göngu sína á nýjan leik en þátturinn verður aðgengilegur á DV.is og í Sjónvarpi Símans. Nýr þáttur verður aðgengilegur alla föstudaga.
Helgi Fannar Sigurðsson, íþróttablaðamaður og sparkspekingurinn Hrafnkell Freyr Ágústsson munu stýra Íþróttavikunni saman. Hjörvar Hafliðason var gestur í fyrsta þætti þeirra félaga.
Besta deild karla hefur farið ansi skemmtilega af stað en það er þó eitt og annað sem mætti fara betur.
„Það eru einstaka dæmi sem hafa stuðað mann. Eins og leikstaðir. Þetta fíaskó með FH-inga, leiðinlegt fyrir KR-inga að þurfa að spila á Seltjarnarnesi. Þetta dæmi í Keflavík,“ segir Hjörvar.
„Það verða allir að leggjast á eitt að gera þetta betur. Ef við ætlum að spila í apríl verða allir að vera á gervigrasi. Þetta er ekki flókið og allir eiga að hefja þá vegferð.
Leikirnir margir hverjir eru mjög góðir, við erum að fá óvænt úrslit, markaleiki.“
Hrafnkell tók í sama streng. „Ef ekki verða bara lið eins og ÍBV, Keflavík, KR og FH að sætta sig bara við að spila fyrstu leikina sína á útivelli. Við getum ekki verið að bjóða upp á þennan völl hjá FH, þetta er bara djók.“
Helgi tók til máls.
„Allavega þarf að vera klárt hvaða lið er með hvaða varavöll. Þá er bara eitthvað protocol, þessi völlur er ekki leikhæfur og þá fer ekkert fíaskó af stað, það er bara búið að ákveða varavöllinn fyrir tímabil.“
Umræðan í heild er hér að neðan.