Anthony Martial er ekki nógu góður fyrir Manchester United ef þú spyrð sparkspekinginn Paul Merson.
Merson er fyrrum enskur landsliðsmaður en hann hefur lengi starfað fyrir Sky Sports og fjallar um enska boltann.
Martial er ekki vinsæll á meðal allra stuðningsmanna Man Utd og skilur Merson af hverju. Hann telur að Frakkinn sé ekki með gæðin til að leika fyrir félagið.
,,Í dag eru fremstu þrír leikmenn Manchester United þeir Marcus Rashford, Anthony Martial og Antony en ég tel að það verði breytingar í sumar, milljón prósent,“ sagði Merson.
,,Þeir eru 16 stigum á eftir Manchester City og sama lið á næsta tímabili mun ekki komast nálægt titlinum.“
,,Þeir þurfa Harry Kane. Anthony Martial – í alvöru? Hann ætti ekki að vera að spila fyrir Manchester United, afsakið það.“