Eddie Howe, stjóri Newcastle, hefur þvertekið fyrir þær sögusagnir að leikmenn eins og Neymar og Cristiano Ronaldo séu á leið til félagsins.
Neymar og Ronaldo eru tvær af stórstjörnum fótboltans en það eru miklir peningar til í Newcastle og gæti félagið svo sannarlega keypt svona stjörnur til liðsins.
Howe segir að það sé þó ekki stefna félagsins að eyða peningum í stórstjörnur jafnvel þó félagið sé á leið í Meistaradeildina.
,,Þessar sögusagnir hafa verið á kreiki síðan nýju eigendurnir eignuðust félagið. Auðvitað bjuggust allir við að stærstu nöfn fótboltans væru á leið til Newcastle,“ sagði Howe.
,,Við höfum ekki unnið þannig hingað til og við getum ekki eytt svoleiðis fjárhæðum og þurfum að fá inn réttu leikmennina fyrir hópinn.“
,,Ég myndi segja að félagaskiptamarkaðurinn sé flókinn og það er mikil hugsun sem er á bakvið það sem þú gerir. Þú getur ekki bara valið eitthvað nafn það þarf að vera ákveðin hugsun á bakvið það sem þú gerir fjárhagslega.“