Mason Greenwood er búinn að sætta sig við það að hann muni aldrei spila fyrir Manchester United aftur.
The Sun fullyrðir þessar fregnir og hefur það eftir áreiðanlegum heimildarmanni að Greenwood muni færa sig um set.
Greenwood hefur ekki spilað fyrir Man Utd í 15 mánuði en hann var lengi undir rannsókn lögreglunnar og sakaður um nauðgun og kynferðisofbeldi.
Allar kærur voru felldar niður í febrúar á þessu ári en Greenwood mun ekkert spila á þessu tímabili.
,,Mason trúir því að ferill hans hjá Manchester United sé búinn. Hann hefur setið heima hjá sér mjög pirraður,“ er haft eftir heimildarmanni Sun.
,,Hann vill komast aftur á völlinn en áttar sig á því að staðan sé flókin. Hann er ákveðinn í að snúa aftur en hefur enga trú á að hann klæðist treyju United aftur.“
Kvennalið Man Utd sem og sumir leikmenn karlaliðsins eru sterklega á móti því að leikmaðurinn spili aftur fyrir félagið.