Spænska blaðið AS heldur því fram í dag að Jude Bellingham hafi gert upp hug sinn varðandi framtíðina.
Hinn 19 ára gamli Bellingham er líklega eftirsóttasti leikmaður heims. Hann hefur verið stórkostlegur fyrir Borussia Dortmund undanfarin ár.
Það er hins vegar talið líklegt að miðjumaðurinn fari frá félaginu í sumar og hafa nokkur félög verið nefnd sem hugsanlegir áfangastaðir.
Lengi vel var Liverpool talið leiða kapphlaupið en svo er ekki lengur. Einnig hafa Manchester City og Real Madrid verið nefnd til sögunnar.
AS segir einmitt að Bellingham hafi ákveðið að ganga í raðir Real Madrid í sumar.
Telur Bellingham þetta rétt næsta skref á ferlinum. Í Madríd sjá menn hans sem arftaka Luka Modric og Toni Kroos til langs tíma á miðjunni.
Það sem gæti komið í veg fyrir að skipti frá Dortmund til Real Madrid takist er þó upphæðin sem fyrrnefnda félagið biður um. Vill það um 130 milljónir punda fyrir Bellingham en Real Madrid vill samkvæmt fréttum ekki greiða svo mikið.