Breiðablik og Fram mættust í ótrúlegum leik í Bestu deild karla í kvöld. Blikar höfðu betur að lokum en naumt var það. Þorkell Máni Pétursson var allt annað en hrifin af frammistöðu Íslandsmeistaranna í kvöld.
Blikar komust í 3-0 áður en Framarar minnkuðu muninn í 3-2. Þeir grænklæddu komust svo í 4-2 áður en Fram jafnaði í 4-4.
Í blálokin skoraði Klæmint Olsen svo sigurmark Blika með skalla eftir hornspyrnu.
„Ég vona að Blikarnir fari nú ekki að ljúga að sér eftir þessa frammistöðu. Eins og þeir voru frábærir fyrstu 30 mínúturnar þá eru þessar næstu 60, að láta Framara jafna 4-4, þetta er til skammar fyrir Íslandsmeistaralið. Þeir geta þakkað fyrir markið frá Klæmint í lokin því það benti ekkert til þess að þeir væru að fara að skora,“ sagði Máni eftir leik á Stöð 2 Sport í kvöld.
Blikar eru með sex stig eftir fjóra leiki og hafa ekki verið sannfærandi.
„Þetta er ótrúlegt atriði. Þú ert með Íslandsmeistaralið að fá á sig fjögur mörk á móti Fram, fjögur á móti HK. Ég er ekki að gera lítið úr þessum liðum en þetta eru lið sem eiga að vera í neðri hlutanum. Það er eitthvað í gangi í kollinum á leikmönnum Blika, ég veit ekki hvað það er.
Þetta var ekki Íslandsmeistaraframmistaða, langt frá því.“