Martin Ödegaard sagði að leikmenn Arsenal hafi verið ansi vonsviknir eftir tapið gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Ríkjandi Englandsmeistarar City unnu þægilegan 4-1 sigur. Nú eru þeir aðeins 2 stigum frá Arsenal, sem er á toppi deildarinnar, en eiga tvo leiki til góða.
„Ég held að allir séu leiðir núna. Við vildum koma hingað og ná í eitthvað. Við þurfum að standa saman og halda áfram,“ sagði Ödegaard eftir leik í gær.
Hann hefur ekki gefið upp trúna á að Arsenal geti enn orðið meistari þrátt fyrir tapið í gær.
„Það er allt hægt í fótbolta. Við verðum að gera okkar og svo sjáum við hvað gerist.
Þetta eru mikil vonbrigði. Ég get ekki svarað fyrir það af hverju þetta var svona.“
Næsti leikur Arsenal er gegn Cheslea á þriðjudag.