Það var rætt um félagaskipti Olivers Heiðarssonar í hlaðvarpinu Dr. Football í dag.
Oliver gekk í raðir ÍBV frá FH. Þetta var staðfest í gær. Viðræður hafa átt sér stað á milli ÍBV og FH undanfarið og náðist samkomulag að lokum.
Oliver, sem er fæddur árið 2001, skoraði fimm mörk í 31 leik fyrir FH í deild og bikar á síðustu leiktíð.
„Gaflararnir tala um að hann hafi kostað 7 milljónir,“ sagði Hjörvar Hafliðason í þætti dagsins.
Gunnar Birgisson var gestur í dag og tók til máls. „Ég er ánægður með að íslenski markaðurinn sé að opnast. Hérna áður fyrr bauðstu í leikmann í einhverju liði og hitt liðið fór í fýlu.“
Jóhann Már Helgason tók undir með honum.
„Það er gaman að það sé lifandi félagaskiptamarkaður. Miklu skemmtilegra.“
Ef satt reynist að Oliver hafi kostað ÍBV 7 milljónir er hann næst dýrasti leikmaður á íslenska félagaskiptamarkaðnum frá upphafi. Aðeins Patrik Johannesen kostaði meira, en hann fór frá Keflavík til Breiðabliks á 11 milljónir króna.
Oliver er sonur Heiðars Helgusonar sem átti afar farsælan feril sem atvinnu og landsliðsmaður í knattspyrnu. Oliver ólst upp á Englandi en lék með Þrótti áður en hann gekk í raðir FH fyrir tímabilið 2021.
ÍBV er með þrjú stig eftir þrjár umferðir í Bestu deildinni en liðið vann öflugan sigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks á sunnudag.