Það stendur ansi tæpt að leikur FH og KR í Bestu deild karla geti farið fram í Kaplakarika á föstudag eins og málin standa í dag.
FH-ingar eru að fara yfir heimavöll sinn en næturfrost og spá næstu daga gæti orðið til þess að leiknum yrði hreinlega frestað.
FH mætti Stjörnunni á heimavelli á dögunum en leikurinn var spilaður á æfingavelli félagsins, þótti mörgum aðstæður ekki boðlegar þar fyrir leik í efstu deild. Möguleiki er á að leikurinn við KR fari fram þar.
FH og KR eiga að mætast í Kaplakrika á föstudag klukkan 18:00 en verið er að fara yfir völlinn áður en næstu skref verða skoðuð.
„Það er í skoðun akkúrat núna, eins og með alla aðra grasvelli á landinu þá er þetta tæpt. Það er bara verið að meta hvað er hægt að gera í þessu,“ sagði Sigurvin Ólafsson, aðstoðarþjálfari FH þegar dregið var í bikarnum í dag. FH mætir Gróttu á heimavelli í maí.
Eins og fyrr segir er spáin fyrir næstu daga ekki hagstæð fyrir grasvelli landsins. „Það var ekki annað fyrirséð en að þessi leikur færi fram á aðalvellinum en tíðin hefur verið ansi svöl síðustu daga og verður áfram. Það hefur hægst á sprettunni,“ segir Sigurvin.