Grindavík hefur samið við framherjann Edi Horvat um að leika með félaginu í Lengjudeild karla í sumar. Edi kemur frá Króatíu og er 25 ára gamall. Hann hefur leikið með NK Krka í Slóveníu síðustu mánuði en var þar áður á mála hjá Legion FC í USLC deildinni í Bandaríkjunum.
Edi var á reynslu hjá félaginu í nokkra daga. Hann mætir til félagsins í góðu leikformi og er tilbúinn í tímabilið með Grindavík í sumar.
„Við höfum við að leita af framherja í nokkra mánuði sem er með aðra eiginleika en okkar núverandi sóknarmenn. Edi er sterkur framherji með fínan hraða sem við teljum að muni styrkja okkar fremstu víglínu. Edi kemur líka vel fyrir sem er alltaf mikill styrkleiki,“ segir Helgi Sigurðsson, þjálfari Grindavíkur.
Edi Horvat mun fá félagaskipti núna í vikunni og verður því klár í fyrsta leik með félaginu þegar Grindavík mætir ÍA í fyrstu umferð á Akranesi þann 5. maí næstkomandi.