Guiseppe Marotta, stjórnarformaður Inter Milan, hefur staðfest það að Romelu Lukaku snúi aftur til Chelsea í sumar.
Lukaku hefur engan áhuga á að spila aftur fyrir Chelsea en óljóst er hvort Inter geti borgað verðmiða leikmannsins.
Lukaku kostaði Chelsea 97 milljónir punda fyrir tveimur árum en eftir eitt slakt tímabil á Englandi var hann lánaður aftur til Inter.
Ítalska félagið er ekki að undirbúa kauptilboð að svo stöddu og mun Lukaku um tíma snúa aftur til Englands.
,,Lukaku á næsta ári? Það er of snemmt fyrir okkur að taka ákvörðun. Hann mun snúa aftur til Chelsea og svo sjáum við hvað gerist,“ sagði Marotta.
,,Lukaku vill spila áfram með Inter, við vitum hvað hann vill og þurfum að skoða hvort við getum samið um hans endurkomu.“