Bukayo Saka, stjörnuleikmaður Arsenal er nálægt því að skrifa undir nýjan samning við félagið. Það er Daily Mail sem greinir frá vendingunum nú í kvöld.
Samkvæmt heimildum miðilsins hefur Saka tjáð forráðamönnum Arsenal að hann vilji vera áfram hjá félaginu. Nýr samningur milli hans og félagsins muni færa saka um 10 milljónir punda á árs grundvelli.
Daily Mail segir góðan gang hafa verið í viðræðum milli leikmannsins og félagsins undanfarnar vikur, stórir þröskuldar hafi verið yfirstignir.
Samningurinn muni færa Saka um og yfir 200 þúsund pund í vikulaun og myndi samningurinn, með bónusum, gera hann að launahæsta leikmanni Arsenal.
Þessi 21 árs gamli leikmaður er orðinn fasta- og lykilmaður í liði Arsenal. Hann er uppalinn hjá félaginu, hefur farið á kostum undanfarið ár og á eitt ár eftir af núverandi samningi sínum.