Xavi þjálfari Barcelona hefur opnað dyrnar fyrir endurkomu Lionel Messi í sumar. Framtíð kappans er í lausu lofti.
Fyrir áramót var talið að Messi myndi framlengja dvöl sína í París en nú er það óvíst. Núverandi samningur Messi við PSG rennur út í sumar.
Messi er sterklega orðaður við Inter Miami í Bandaríkjunum en ekki skal útiloka endurkomu hans til Katalóníu.
„Messi veit að Barcelona er hans heimili og að dyrnar eru alltaf opnar, ég hef oft sagt það,“ sagði Xavi.
„Messi er vinur minn og við erum í reglulegu sambandi, endurkoma er undir honum komið. Messi er besti leikmaður sögunnar og fyrir hann er alltaf pláss.“
Messi er duglegur að heimsækja Barcelona þar sem hann bjó stærstan hluta ævi sinnar, fjölskyldan hefur boðað það að búa þar í framtíðinni.