Grasrótarverðlaunum KSÍ er skipt upp í þrjá flokka: Grasrótarverkefni ársins, Grasrótarfélag ársins og Grasrótarpersóna ársins. Þetta er í annað sinn sem verðlaunum er þrískipt með þessum hætti.
Mjög ánægjulegt var að sjá hversu margar flottar tilnefningar bárust í öllum þremur flokkunum í ár og greinilegt að grasrótarstarf í fótbolta er í miklum blóma víðs vegar um land. Það var verðugt verkefni að velja úr og margar tilnefningar komu til greina.
Grasrótarfélag ársins:
Hamar fyrir þrautseigju í starfi yngri flokka við erfiðar aðstæður.
Snemma árs 2022 varð íþróttasamfélagið í Hveragerði fyrir áfalli þegar Hamarshöllin eyðilagðist í óveðri. Þetta hafði augljóslega mikil áhrif á knattspyrnustarfið og félagið stóð frammi fyrir því að hafa enga almennilega aðstöðu til knattspyrnuiðkunar á vetrardögum og fram að sumri. Mesta áfallið varð hjá ungum knattspyrnuiðkendum sem fram að þessu höfðu ekki þekkt neitt annað en að æfa sína íþrótt inni í Hamarshöllinni sem og á útisvæðum á sumrin.
Aðstandendur deildarinnar þurftu því að finna leiðir til að halda úti æfingum og eins óskertri starfsemi og mögulegt væri, á meðan lausn yrði fundin. Má með sanni segja að þjálfarar og aðstandendur deildarinnar hafi staðið sig með einstakri prýði í erfiðum aðstæðum. Með samtakamætti samfélagsins, annarra deilda í bænum sem og knattspyrnudeilda í nágrannafélögum var unnt að halda úti starfsemi, í breyttri mynd.
Í umsögn sem fylgdi tilnefningunni segir meðal annars: “Eiga allir sem báru þungann af þessari skipulagningu einlægt og innilegt hrós skilið fyrir vinnu sína og baráttu við að halda uppi grasrótarstarfi knattspyrnunnar í bænum eftir þetta mikla áfall.”
Mynd (frá vinstri): Sara Margrét Hammer, Unnar Magnússon og Eydís Valgerður Valgarðsdóttir frá Hamri.