Auðunn Blöndal var staddur á Nývangi á leik Barcelona gegn Manchester United í síðustu viku. Hann var þar ásamt Barcelona-goðsögninni Eiði Smára Guðjohnsen.
Börsungar tóku á móti United í fyrri leik liðanna í Evrópudeildinni. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli og fer seinni leikurinn fram á Old Trafford annað kvöld. Sigurvergari einvígisins fer í 16-liða úrslit keppninnar.
Þó svo að Auðunn hafi setið með Eiði og stuðningsmönnum Barcelona á leiknum er hann sjálfur aðdáandi United og studdi þá eins og alltaf.
Hann átti erfitt með að fela tilfinningar sínar yfir leiknum en tókst það þó.
„Það var pínu vesen. Ég var ógeðslega lúmskur. Við vorum hjá blóðheitu liði og það var þvílík stemning á vellinum,“ segir Auðunn í Blökastinu, en hann vildi ekki taka áhættuna á að fagna mörkum United fyrir framan stuðningsmenn Börsunga.
„Þegar Rashford skoraði, ég átti svo erfitt með mig. Ég stóð upp: „Nei!“ Ég þóttist vera ógeðslega reiður,“ segir hann.