David Moyes stjóri West Ham gæti orðið atvinnulaus um helgina ef liðið tapar gegn Nottingham Forest á heimavelli.
Starfið hjá Moyes hefur hangið á bláþræði undanfarnar vikur en nú þegar West Ham er í fallsæti er málið orðið alvarlegt í huga stjórnarmanna West Ham.
Daily Mail segir frá því í dag að Rafa Benitez bíði og vonist eftir því að fá starfið, búið sé að ræða við hann.
Þar segir einnig að Mauricio Pochettino og Thomas Tuchel hafi báðir afþakkað starfið þegar þeir fengu fyrirspurn.
Stuðningsmenn West Ham eru byrjaðir að kalla eftir breytingum og tap gegn nýliðum Nottingham á heimavelli yrði líklega síðasti naglinn í kistu Moyes.