Ársmiðahafar hjá Manchester United þurfa að punga út hærri upphæð en venjulega til að fá miða á leiki liðsins á næstu leiktíð.
Í ellefu ár í röð hefur verð á ársmiða verið það sama en núna hefur United tilkynnt um 5 prósenta hækkun á næstu leiktíð.
Félagið segir í tölvupósti til stuðningsmanna að kostnaður við leikdag sé ástæðan. Hefur sá kostnaður hækkað um 40 prósent á síðustu fimm árum.
Þá hefur sá kostnaður aukist um 11 prósent á síðustu tólf mánuðum.
Í frétt The Athletic segir að þetta eigi ekki að koma fólki á óvart enda er verðbólga vel yfir tíu prósent á Bretlandi.
Allt starfsfólk á leikdegi hjá United hækkaði um 9 prósent í launum á dögunum til að mæta þeirri verðbólgu sem herjar nú á landið.
Óvíst er hver verður eigandi United þegar næsta tímabil hefst en Glazer fjölskyldan skoðar að selja félagið.