Framtíð Lionel Messi er í óvissu um þessar mundir.
Samningur þessa 35 ára gamla knattspyrnusnillings við Paris Saint-Germain rennur út í sumar. Félagið vill framlengja við hann en samkvæmt fréttum er Messi óviss um framtíð sína í borg ástarinnar.
Inter Miami í Bandaríkjunum horfir til þess að nýta sér óvissuna og lokka Messi til sín.
Argentínumaðurinn hefur verið lengi á blaði Inter Miami, sem er í eigu knattspyrnugoðsagnarinnar David Beckham.
Ekki skemmir fyrir að Messi og fjölskylda hans eru talin mjög hrifin af þeirri hugmynd að búa í Bandaríkjunum.
Þar spilar inn í sú ástæða að þau eiga þegar glæsilegt heimili þar. Þau eyða þar reglulega tíma í fríinu.