Tveir leikir fóru fram í fyrri viðureignum 16-liða úrslita Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Borussia Dortmund bar sigurorðið gegn Chelsea og þá vann Benfica góðan sigur á Club Brugge á útivelli.
Í Þýskalandi tóku heimamenn í Borussia Dortmund á móti enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea.
Aðeins eitt mark var skorað í leiknum og það kom á 63. mínútu og var þar að verki Karim Adeyemi, leikmaður Dortmund.
Dortmund fer því með eins marks forystu inn í síðari leik liðanna sem leikinn verður á Brúnni í Lundúnum.
Gestirnir höfðu betur í Belgíu
Í Belgíu tóku heimamenn í Club Brugge á móti portúgalska liðinu Benfica.
Það var Joao Mario, leikmaður Benfica sem kom gestunum yfir og það með marki úr vítaspyrnu á 51. mínútu leiksins.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 88. mínútu þegar að David Neres tvöfaldaði forystu Benfica með marki og reyndist það lokamark leiksins.
Benfica fer því með góðan sigur í farteskinu heim til Portúgal fyrir seinni leik liðanna.