Knattspyrnumaðurinn Christian Atsu er enn týndur í rústunum í Tyrklandi. Umboðsmaður hans staðfestir þetta.
Tugir þúsunda hafa týnt lífi eftir svakalegan jarðskjálfta sem skók hluta Tyrklands og Sýrlands í síðustu viku. Tala látinna hækkar.
Umboðsmaðurinn er á skjálftasvæðinu ásamt fjölskyldu Atsu. Hann segir að þau hafi komist að því nákvæmlega hvar herbergi hans var. Einnig segir hann að tvö skópör hafi fundist.
Um sólarhring eftir jarðskjálftann voru sagðar fréttir af því að Atsu væri á lífi og hefði fundist undir rústum byggingarinnar þar sem hann bjó. Þær fréttir reyndust hins vegar því miður ekki á rökum reistar.
Atsu er 31 árs gamall en hann kom árið 2013 til Chelsea en spilaði aldrei í deild fyrir félagið. Hann var lánaður til Vitesse, Everton, Bournemouth, Malaga og Newcastle áður en hann fór frá félaginu.