Alejandro Garnacho kantmaður Manchester United var lítill í sér eftir 2-2 jafntefli liðsins gegn Leeds í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Garnacho klikkaði á góðu færi í leiknum og átti stóran þátt í því að Leeds skoraði annað mark sitt í leiknum þegar hann missti boltann á hættulegum stað.
Kantmaðurinn ungi frá Argentínu var skömmu síðar tekinn af velli þegar Leeds var 2-0 yfir en United tókst að jafna leikinn.
Garnacho fékk mikla gagnrýni að leik loknum og einn stuðningsmaður United sagði að Garnacho væri ekki klár í að byrja leiki.
Við þá færslu setti Garnacho „læk“ en vekur það furðu margra að hann hafi ákveðið að gera það, Garnacho er 18 ára gamall og hefur átt góða spretti í liði United á þessu tímabili.