Arsenal hefur lagt fram risatilboð í Alessiu Russo, leikmann Manchester United og yrði það samþykkt myndi upphæð kaupverðsins verða að heimsmeti í kvennaknattspyrnunni. Frá þessu greinir The Athletic.
Russo, sem er 23 ára, hefur átt í viðræðum við Manchester United um nýjan samning en hingað til hafa þær viðræður ekki borið árangur. Samningur leikmannsins rennur út í sumar en ekki hefur.
Arsenal hefur blandað sér í málin með stóru tilboði í Russo sem hefur skorað fimm mörk í níu leikjum í efstu deild kvenna á Englandi á þessu tímabili. Heimsmetið í kvennaknattspyrnunni þegar kemur að kaupverði leikmanna er 400 þúsund pund. Það var sett þegar Keira Walsh gekk til liðs við Barcelona frá Manchester City á síðasta ári.
Norður-Lundúna liðið hefur verið í vandræðum fram á við vegna meiðsla lykilleikmanna sinna en bæði Beth Mead og Vivienne Miedema eru frá vegna meiðsla.
Jonas Eidevall, þjálfari Arsenal hefur áður greint frá því í samtölum sínum við fjölmiðla að hann vilji bæta markaskorara við leikmannahóp liðsins og er það eiginleiki sem Russo fellur vel inn í.
Russo lék lykilhlutverk í landsliði Englands sem varð Evrópumeistari á heimavelli í fyrra. Hún á að baki 17 A-landsleiki fyrir England og hefur skorað tíu mörk í þeim leikjum.