Nottingham Forest tók á móti Manchester United í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í kvöld.
Gestirnir voru sterkari í fyrri hálfleik og komust yfir strax á sjöttu mínútu með marki frá hinum sjóðheita Marcus Rashford eftir sendingu frá Casemiro, sem var að snúa aftur í kvöld eftir leikbann.
Sam Surridge hélt að hann væri að jafna fyrir Forest um miðjan fyrri hálfleik en markið var dæmt af með aðstoð VAR.
Rauðu djöflarnir komust í 0-2 fyrir hálfleik. Wout Weghorst skoraði sitt fyrsta mark fyrir United er hann kom boltanum í netið í kjölfar þess að skot Antony var varið.
Lítið var um að vera lengi vel í seinni hálfleik en United gerði sig líklegt undir lokin. Það skilaði sér í marki Bruno Fernandes með frábærri afgreiðslu.
Lokatölur 0-3 og staða United í einvíginu afar væn. Seinni leikurinn fer fram á Old Trafford eftir slétta viku.
Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Southampton og Newcastle. Fyrri leikur liðanna fór fram í gær á heimavelli fyrrnefnda liðsins. Newcastle bar 0-1 sigur úr býtum og fer með sterka stöðu í seinni leikinn á heimavelli.