Franska knattspyrnugoðsögnin Thierry Henry, fyrrum leikmaður liða á borð við Arsenal og Barcelona segist hafa mælt með því við Joan Laporta, forseta Barcelona, að Hollendingurinn Erik ten Hag yrði ráðinn í stöðu knattspyrnustjóra á sínum tíma.
Frá þessu greindi Henry á CBS Sports í kringum leik Arsenal og Manchester United á dögunum en Laporta fór ekki að ráðum Henry á sínum tíma, Erik ten Hag er nú knattspyrnustjóri Manchester United.
Ten Hag tók við stjórnartaumunum á Old Trafford fyrir yfirstandandi tímabil og hefur verið að gera afar góða hluti hjá félaginu. Manchester United er sem stendur í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og sjá má mikil batamerki á spilamennsku liðsins milli leiktíða.
Þegar að Ronald Koeman var látinn fara sem knattspyrnustjóri Barcelona á síðari hluta ársins 2021 segist Henry hafa mælt með Erik ten Hag við Laporta hjá Barcelona.
„Ég er mikill aðdáandi Ten Hag og kann mjög vel við hann,“ sagði Henry á CBS Sports á dögunum. „Hann er þjálfari sem ég mælti með að yrði ráðinn til Barcelona þegar að Koeman var látinn fara. Hann er snillingur.“
Henry hefur hrifist af spilamennsku Manchester United undir stjórn Ten Hag, líka í leik liðsins gegn Arsenal um síðastliðna helgi.
„Í þessum leik sáum við lið sem hefur verið í þróun undanfarin þrjú ár (Arsenal) etja kappi við lið sem hefur verið í þróun í sex mánuði. Einnig sáum við lið sem hefur fengið hvíld í sex daga keppa á móti liði sem hefur fengið tvo daga í kvöld sem náði Manchester United að standast þeim snúning. Það kom mér á óvart.“
Frakkinn skynjar góða hluti í þróun hjá Manchester United.
„Gefið honum eitt ár í viðbót og almennilegan stuðning á félagsskiptamarkaðnum og Manchester United verður aftur ráðandi afl. Ég ætla enga vanvirðingu í garð Sir Alex Ferguson en ef Ten Hag kemur hlutunum á réttan stað hjá Manchester United mun liðið spila meira aðlaðandi fótbolta en var raunin undir stjórn Sir Alex Ferguson.“