Enska úrvalsdeildarfélagið Everton hefur loks gefið út yfirlýsingu um starfslok knattspyrnustjórans Frank Lampard. Yfirlýsingin birtist á heimasíðu félagsins í kvöld, mörgum klukkustundum eftir að vendingarnar höfðu komið fram í fjölmiðlum.
„Everton getur staðfest að Frank Lampard hefur yfirgefið stöðu sína hjá félaginu,“ segir meðal annars í yfirlýsingu félagsins þar sem einnig er staðfest að aðstoðarmenn hans. Joe Edwards, Paul Clement, Ashley Cole og Chris Jones hafi einnig yfirgefið félagið.
„Allir hjá Everton vilja þakka Frank og hans teymi fyrir þeirra þjónustu í þágu félagsins á því sem segja má að hafi verið krefjandi 12 mánuðir.“
Þá er það einnig staðfest í yfirlýsingu Everton að leit sé hafin að nýjum knattspyrnustjóra en þangað til muni Paul Tait og Leighton Baines hafa yfirumsjón með liðinu.
Sean Dyche er talinn líklegastur þessa stundina til þess að taka við stjórnartaumunum í Guttagarði. Þá er Marcelo Bielsa einnig sagður líklegur en The Athletic greinir frá því í kvöld að forráðamenn Everton hafi nú þegar rætt við hann.
#EFC can confirm that Frank Lampard has left his post as Senior Men’s First Team Manager today.
Paul Tait and Leighton Baines will take training until a new manager is appointed.
— Everton (@Everton) January 23, 2023