Pólski miðvörðurinn Jakub Kiwior er orðinn leikmaður Arsenal, félagið tilkynnti um komu Jakub fyrr í kvöld en Arsenal er sem stendur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með fimm stiga forystu og leik til góða á Manchester City.
Jakub gengur til liðs við Arsenal frá Spezia á Ítalíu fyrir um 25 milljónir evra og í viðtali sem birtist við hann á heimasíðu félagsins er ljóst að um stóra stund sé að ræða fyrir hann.
„Þegar að ég sá nafn mitt á treyjunni í fyrsta skipti fór ég bara að hlægja,“ segir Jakub og bætir við. „Ég var svo ánægður með að sjá nafn mitt á treyju hjá svona stóru félagi. Fyrir mig er þetta gríðarlega stór stund og algjör hátindur að spila fyrir svona stórt félag.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal er jafnframt ánægður með að náðst hafi að ganga frá félagsskiptum Jakub til Arsenal.
„Það er frábært að Jakub hafi gengið til liðs við okkur,“ segir Arteta um Jakub. „Hann er ungur og fjölhæfur varnarmaður sem hefur sýnt að mikið er í hann spunnið hjá Spezia í ítölsku úrvalsdeildinni sem og með pólska landsliðinu. Jakob er leikmaður sem styrkir okkur og gefur okkur meiri gæði í varnarleiknum. Við bjóðum hann og fjölskyldu hans velkomna til Arsenal og hlökkum til samstarfsins.“