Leandro Trossard mætti á æfingasvæði Arsenal í morgun. Hann er að ganga í raðir félagsins frá Brighton fyrir 27 milljónir punda.
Þessi 28 ára gamli Belgi mun skrifa undir þriggja og hálfs árs samning á Emirates.
Trossard getur spilað úti á kanti og í fremstu víglínu, sem og fyrir aftan framherja.
Arsenal ætlaði upphaflega að fá Mykhailo Mudryk í þessum mánuði en hann hélt til Chelsea á ögurstundu.
Á þessari leiktíð hefur Trossard skorað sjö mörk og lagt upp þrjú í sextán leikjum með Brighton í ensku úrvalsdeildinni.
Nú er Trossard mættur á æfingasvæði Arsenal, þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun.
Félagið vill klára skiptin fyrir hádegi, þá gæti Trossard fengið leikheimild fyrir stórleik Arsenal og Manchester United á sunnudag.