Vincent Kompany stjóri Burnley hefur staðfest að félagið eigi í viðræðum við Jóhann Berg Guðmundsson um nýjan samning.
Samningur Jóhanns sem er 32 ára rennur út í sumar en félagið reynir að tryggja starfskrafta hans til framtíðar.
Jóhann gekk í raðir Burnley árið 2016 en liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni síðasta vor, líklega verður liðið komið aftur upp í deild þeirra bestu nú í vor en liðið hefur sextán stiga forskot á þriðja sætið í Championship deildinni.
„Bak við tjöldin eru alltaf samræður í gangi, ég elska að vinna með Jóhanni,“ segir Kompany sem er á sínu fyrsta ári í starfi.
„Þetta snýst um að ná samkomulagi sem hentar okkur og honum. Hann er mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur, það mikilvægasta fyrir mig er að hann haldi áfram að spila vel. Haldist heill, sem hann hefur gert. Hans hæfileikar eru þannig að þeir munu alltaf svara öllum spurningum innan vallar.“
Jóhan hafði glímt við mikið af meiðslum fyrir komu Kompany en Jóhann hefur spilað 23 leiki á þessu tímabili og haldist heill.
„Jóhann hefur mest spilað í 4-3-2-1, hollenska kerfinu. Hann er góður á milli lína og getur farið inn á við og út á við. Að auki vinnur hann frábæra varnarvinnu fyrir liðið.“