Það er óhætt að fullyrða að vandræði séu hjá Liverpool þessa dagana.
Liðið er í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir átján leiki. Um helgina tapaði það fyrir Brighton, 3-0.
Eiður Smári Guðjohnsen var á Vellinum á Símanum Sport í gær. Þar voru vandræði Liverpool að sjálfsögðu til umræðu.
Knattspyrnugoðsögnin tekur eftir einu sem er breytt við Liverpool í dag frá frábæru liði Liverpool undanfarin ár.
„Þeir finna það sjálfir, virðist vera, að þeir eru ekki svona ósnertanlegir lengur eins og þeir voru. Þeir labba ekki inn á völlinn og vita að þeir vinna. Andstæðingurinn finnur fyrir því, nýtir veikleikana. Brighton yfirspilaði þá,“ segir Eiður.
Hann var hissa þegar hann sá leik liðsins um helgina.
„Það eru svæði út um allt, sem er það erfiðasta í fótbolta, að finna svæði. Maður horfir á þennan leik og er hálf gapandi. Fyrir einu, tveimur árum var Liverpool eitt besta lið Evrópu. Nú er þetta það sem við sjáum.“