Erik ten Hag, stjóri Manchester United, skilur af hverju Manchester City var mjög pirrað yfir markinu sem liðið skoraði í grannaslagnum í gær.
Um var að ræða fyrra mark Man Utd í 2-1 sigri en Bruno Fernandes kom þá boltanum í netið á 78. mínútu.
Marcus Rashford var dæmdur rangstæður af einum línverði leiksins en eftir VAR-skoðun var markið dæmt gott og gilt.
Margir hafa pirrað sig yfir því en Rashford tók klárlega þátt í sókninni þrátt fyrir að hafa ekki snert boltann.
Ten Hag skilur reiði Man City eftir leik og var auðmjúkur eftir lokaflautið á Old Trafford.
,,Ég get líka skilið þeirra hlið. Reglurnar, þetta var ruglandi augnablik fyrir þeirra varnarlínu,“ sagði Ten Hag.
,,Reglurnar segja að Marcus snerti ekki boltann og þess vegna var hann ekki hluti af spilinu. Bruno kom úr annarri átt en ég get séð þeirra hlið.“