Það vakti athygli er Leandro Trossard var ekki í leikmannahópi Brighton í gær sem spilaði við Middlesbrough í enska bikarnum.
Trossard er einn besti ef ekki besti leikmaður Brighton en hann gæti verið á förum í janúarglugganum.
Roberto De Zerbi, stjóri Brighton, hefur útskýrt fjarveru Trossard og segir að hann sé einfaldlega ekki að leggja sig nógu mikið fram.
,,Hann er einn besti leikmaðurinn okkar og einn sá mikilvægasti. Ég vil alltaf nota hann í byrjunarliðinu en þetta er líka undir honum komið,“ sagði Ítalinn.
,,Ég vil að mínir leikmenn vinni fyrir liðið og Leo þekkir mína skoðun. Ég hef rætt við hann margoft.“
,,Ég er hrifinn af honum sem leikmanni en ég vil meira frá honum, hann getur spilað betur og lagt sig meira fram. Hann getur hlaupið meira og ég vil bara leikmenn sem gefa 100 prósent í alla leiki og æfingar. Ef þeir gera það ekki, þá spila þeir ekki fyrir mig.“