Ítalska knattspyrnugoðsögnin Gianluca Vialli er látin. Hann var 58 ára gamall og hafði barist við krabbamein í brisi.
Vialli átti góðu gengi að fagna með Chelsea og Juventus á leikmannaferlinum. Hann skoraði 40 mörk í 88 leikjum fyrir enska félagið og tók svo við sem þjálfari, fyrst spilandi.
Með Chelsea vann Vialli enska bikarinn og deildabikarinn sem leikmaður og þjálfari. Þá vann hann einnig Evrópukeppni bikarhafa, svo eitthvað sé nefnt.
Með Juventus varð Vialli Ítalíumeistari 1995 og Evrópumeistari ári síðar.
Vialli á þá að baki 58 leiki fyrir ítalska landsliðið. Hann var einnig í þjálfarateymi þess er það varð Evrópumeistari sumarið 2021.
Hann losnaði við krabbameinið 2020 en það tók sig upp aftur.
Vialli skilur eftir sig eiginkonu og tvær dætur.
Knattspyrnuheimurinn allur syrgir hetjuna.