Jón Sveinsson, þjálfari karlaliðs Fram, var gestur í sjónvarpsþætti 433.is á Hringbraut í gær. Þar var farið yfir víðan völl.
Þar ræddi hann meðal annars Danny Guthrie, sem tók óvænt slaginn með Fram í Lengjudeildinni sumarið 2021. Hjálpaði hann liðinu að komast upp í efstu deild það tímabil.
Guthrie er í dag 35 ára gamall en hann á feril í baki í ensku úrvalsdeildinni fyrir lið á borð við Liverpool, Newcastle, Reading og Blackburn.
„Hann var alveg ótrúleg týpa. Hann var mjög auðmjúkur. Hann var ekki með neina stjörnustæla eða að tala um sinn feril. Hann var mikill atvinnumaður,“ segir Jón um Guthrie.
Miðjumaðurinn var ekki alveg klár í slaginn þegar hann mætti hingað til lands.
„Við unnum svolítið í að koma honum í stand og svo lenti hann í smá Covid-veikindum. Hann var óheppinn að hafa ekki spilað enn meira.“
Jón segir að Guthrie hafi gefið liðinu mikið, ekki síður utan vallar.
„Það sem þessi leikmaður gerði fyrst og fremst fyrir okkur var að við það að mæta inn í klefann lyfti hann öllu liðinu upp á tærnar. Hann gaf sig að leikmönnum. Ef menn fóru að ræða við hann gátu komið sögur. Hann var samt ekki að trana sér fram að neinu leyti.
Hann var einlægur og gaf sig allan í þetta.“