Enski miðjumaðurinn Jude Bellingham ætlar að setjast niður með félagsliði sínu, Borussia Dortmund, á næstunni og ræða framtíðina.
Bellingham er aðeins nítján ára gamall en er einn mest spennandi leikmaður heims.
Kappinn er nú þegar einn besti leikmaður enska landsliðsins og algjör lykilmaður á miðjunni hjá Dortmund.
Það þykir næsta víst að hann yfirgefi félagið næsta sumar. AS segir nú frá því að hann ætli sér að setjast niður með æðstu mönnum Dortmund á næstunni og tjá þeim að hann vilji fara næsta sumar.
Það er langlíklegast sem stendur að Bellingham fari til Real Madrid eða Liverpool.
Kappinn verður þó allt annað en ódýr. Talið er að það muni kosta 100 milljónir evra að fá hann, auk annara árangurstengdra greiðsla.