fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
433Sport

Öfgar með yfirlýsingu og gagnrýna KSÍ

433
Föstudaginn 16. september 2022 16:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Öfgar hafa sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að Aron Einar Gunnarsson var valinn í landsliðshóp Arnars Þórs Viðarssonar fyrir komandi verkefni í dag.

Ísland mætir Venesúela í vináttulandsleik í Austurríki eftir slétta viku. Fimm dögum síðar keppir liðið gegn Albaníu í lokaleik sínum í Þjóðadeild UEFA.

Aron Einar hafði borið fyrirliðabandið í landsliðinu um árabil. Hann hefur þó ekki spilað fyrir hönd þjóðarinnar í meira en ár vegna máls á hendur honum.

Ríkissaksóknari staðfesti hins vegar niðurfellingu hérðassaksóknara í meintu nauðgunarmáli hans í Kaupmannahöfn árið 2010 niður í síðasta mánuði. KSÍ hefur sett reglur sem heimila val á leikmönnum í slíkum aðstæðum.

Yfirlýsingin frá Öfgum segir að valið á Aroni undirstriki þörfinni á að halda baráttunni áfram. Samtökin gagnrýna einnig knattspyrnusamband Íslands og að sambandið standi með þolendum.

Yfirlýsing Öfga

Í ljósi þess að Aron Einar hefur verið valinn aftur í lands­liðið.

Fólk veltir því fyrir sér hvaða á­hrif þetta hefur á bar­áttuna. Þetta hefur í fyrsta lagi á­hrif á þol­endur og þannig hefur þetta á­hrif á okkur en þetta hefur engin sér­stök á­hrif á bar­áttuna.

Bar­áttan rís ekki og fellur með fót­bolta­mönnum. Aron Einar er bara enn einn meinti nauðgarinn sem kemst upp með það í skjóli for­réttinda af því hann stundar tuðru­spark.

Þetta kemur okkur ekkert á ó­vart, við vorum búnar að búa okkur undir þetta. Við höldum bara á­fram okkar striki og ef eitt­hvað er þá kyndir þetta undir eld­móð okkar, enda mikil stað­festing á öllu sem við höfum sagt síðustu 15 mánuði og viljum berjast gegn.

Þetta undir­strikar að mann­orðsmorð eru ekki til, slaufunar­menning á einungis við þol­endur og fólk getur því hætt að öskra ,,á að taka menn af lífi án dóms og laga”.

Það er ekki slaufun að taka pásu í nokkrar vikur eða mánuði og koma síðan til baka án þess að þurfa svo mikið sem að líta í eigin barm eða axla á­byrgð.

Þetta stað­festir bara að við erum komin stutt og að á bar­áttunni sé þörf. Þetta stað­festir orð okkar um að lífs­viður­væri karla liggur ekki undir þó þeir séu sakaðir um of­beldi. Þetta stað­festir að nauðgunar­menning þrífst innan KSÍ og að þol­endum er ekki trúað.

Við sjáum núna skýra af­stöðu karla­lands­liðsins og lands­liðs­þjálfara og okkur finnst þá sann­gjarnt að velta hér upp sið­ferðis­kennd þeirra. Af hverju trúa þeir ekki þol­endum? Af hverju skiptir fót­bolta­frami og góður árangur í fót­bolta meira máli en að trúa og standa með þol­endum? Hvað með þá innan liðsins sem vilja ekkert með of­beldi hafa, þeir hljóta að vera ein­hverjir? Hvernig á­hrif mun þetta hafa á móralinn? Er mórallinn ekki líka ein­hvers virði?

Ætlum við virki­lega að sýna ungum iðk­endum sem dreymir um að spila fyrir lands­liðið að Aron Einar, sem kærður var fyrir hóp­nauðgun, sé fyrir­mynd? Hvaða skila­boð sendir það?

Þessi á­kvörðun mun fæla aðra þol­endur frá því að skila skömminni og leita réttar síns. Þetta mun vekja upp efa­semdir þess efnis að KSÍ standi með þol­endum. Það er enn­þá langt í land að jafna kynja­hallann innan KSÍ og þessi á­kvörðun hjálpar ekki að kven­kyns iðk­endur upp­lifi öryggi innan fé­lagsins þegar stað­reyndin er sú að flestir þol­endur eru konur. Konur innan hreyfingarinnar eiga rétt á því að vera séðar og að á þær hlustað sem og þol­endur í heild sinni.

Þetta er stærsta æsku­lýðs­stofnun landsins. For­gangs­röðunin ætti að vera önnur, þar sem öryggi og rödd þol­enda ætti að vega hærra en að moka inn peningum frá FIFA út á vel­gengni meintra of­beldis­manna. Af hverju er liðinu og þjálfaranum meira annt um að vernda orð­spor lúins Aron Einars á kostnað þolanda?

KSÍ segist standa með þol­endum, sýnið það þá í verki. Hér er til­valið tæki­færi fyrir KSÍ að móta reglur varðandi endur­komu og endur­hæfingu. Fyrsta skrefið á þó alltaf að vera að meintur gerandi viður­kenni brot sín, biðjist af­sökunar og bæti sig. Fyrir­myndir unga fólksins okkar eiga að sýna sam­fé­lags­lega á­byrgð.

Við þurfum sér­stak­lega betri reglu­gerð utan um niður­felld mál þar sem við vitum að niður­felling er ekki það sama og sak­leysi. Munum að einungis lág prósenta mála er byggð á röngum sökum, svo lág að við getum gefið okkur að 95-99% mála séu sönn. Munum að þrátt fyrir þá töl­fræði eru flest mál felld niður og því endur­speglar réttar­kerfið á engan hátt sak­leysi meintra ger­enda. Að mál séu niður­felld þýðir ekki að meintir ger­endur séu sak­lausir. Það þýðir einungis að ekki hafi verið hægt að sanna sekt meints geranda fyrir dóm­stólum. Niður­felling er ekki sýknun. Niður­felling er ekki efi á því sem gerðist, niður­felling þýðir ekki að við eigum ekki að trúa þol­endum. Sönnunar­byrði í nauðgunar­málum er mjög þung og því er mjög al­gengt að mál eru felld niður, kyn­ferðis­brot fara fram á bak­við luktar dyr þar sem sjaldan eru vitni. En réttar­kerfið okkar vegur orð meintra ger­enda alltaf þyngra en orð þeirra sem brotið er á.

Kveðja, Öfgar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Slot telur nánast öruggt að tilboði Liverpool verði tekið

Slot telur nánast öruggt að tilboði Liverpool verði tekið
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Van Dijk vonar að Liverpool ráði landa sinn – ,,Einn af þeim bestu“

Van Dijk vonar að Liverpool ráði landa sinn – ,,Einn af þeim bestu“
433Sport
Í gær

England: Meistararnir í engum vandræðum með Brighton

England: Meistararnir í engum vandræðum með Brighton
433Sport
Í gær

Chelsea væri í fallsæti án Palmer

Chelsea væri í fallsæti án Palmer