Chelsea hyggst blanda sér í baráttuna um Mykhaylo Mudryk og stela leikmanninum þar með af Arsenal.
Það er Guardian sem segir frá þessu.
Mudryk, sem er 21 árs gamall og á mála hjá Shakhtar Donetsk í heimalandi sínu, hefur verið sterklega orðaður við Arsenal.
Skytturnar gerðu tilboð í hann á dögunum upp á 40 milljónir evra. Það er langt því frá nóg þar sem Shakhtar verðleggur Mudryk á upphæð sem nemur nær 100 milljónum evra. Nota æðstu menn hjá félaginu kaupverð á Jack Grealish til Manchester City og Antony til Manchester United sér til stuðnings.
Chelsea gæti nýtt sér þetta og stokkið inn í baráttuna um Mudryk. Það yrði afar sárt fyrir Arsenal og stuðningsmenn félagsins.
Mudryk sjálfur hefur þó gefið í skyn áhuga á að ganga í raðir Arsenal.