Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV, segir að Ólafur Kristjánsson hafi verið eini karlmaðurinn sem tók boði um að fjalla um Evrópumót kvennalandsliða í knattspyrnu á stöðinni í sumar.
Edda sagði frá þessu í Dagmálum á Morgunblaðinu. Þar var verið að gera upp íþróttaárið.
Þetta kom upp í kjölfar umræðu um karla sem starfa innan íþrótta kvennamegin.
„Það eru ekki allir sem þora. Við höfum stundum talað um Óla Kristjáns, hann er sá eini sem þorði að fjalla um EM kvenna með okkur í sumar. Ég verð að gefa þessum mönnum stórt hrós,“ segir Edda.
Þáttastjórnandinn Bjarni Helgason spurði Eddu hvaða menn hefðu hafnað því að mæta og fjalla um EM á RÚV í sumar en hún vildi ekki gefa það upp.
„Ég ætla ekki að segja það.“
Íslenska landsliðið var með á EM í sumar. Liðið gerði jafntefli í öllum leikjum sínum en mistókst að komast upp úr riðlinum.