Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður hjá RÚV var gestur í Íþróttavikunni með Benna Bó, ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs og þar var farið yfir víðan völl.
Þar var meðal annars talað um stórleik 8-liða úrslita Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem hefst á besta tíma klukkan 19:00 í kvöld þar sem Englendingar mæta Frökkum.
,,Það verður gaman að sjá þessi lið mætast á þessum tímapunkti. Maður sér að Englendingar virðast vera búnir að finna algjörlega sitt lið,“ sagði Gunnar og bætti við:
,,Á meðan eru Frakkarnir besta fótboltamann í heiminum í dag, Kylian Mbappé.“
Hörður Snævar tók undir það en segist handviss um að Englendingarnir skipti um leikkerfi.
,,Við förum í 3-4-3,“ sagði hann en Gunnar vildi ekki kvitta upp á það.
,,Það væri bara vitleysa hjá þeim,“ svaraði hann Herði sem svaraði sömuleiðis á móti að Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands gæti ekki spilað á tæpum Kyle Walker í bakverðinum.
Gunnar var ósammála þessu mati Harðar.
,,Jú, það er ástæðan fyrir því að hann er búinn að spila honum í gang. Menn voru að tala um Trent Alexander-Arnold..,“ sagði hann.
Þá greip Hörður inn í. ,,Það talar engin um Trent nema fjórir veikustu Poolarar landsins. Það sjá náttúrulega allir að hann hefur ekkert að gera á þetta svið.“
Gunnar telur að Frakkarnir muni ekki senda Englendinga heim. Benedikt Bóas var hissa á því svari.
,,Þú hefur þrjár mínútur til að rökstyðja svar þitt.“
Gunnar segist tengja svakalega lítið við Englandsblætið sem virðist vera ríkjandi hjá íslensku þjóðinni.
,,Þeir eru ógeðslega góðir fram á við, eru búnir að vera hitta á frábæra leiki, það virðist vera frábær andi í hópnum og þeir hafa náð að fjarlægja sig frá pressunni.
Við getum ekki endalaust verið að efast um allt það sem Southgate gerir sem landsliðsþjálfari Englands. Hann virðist bara vera með þetta.“
Umræðuna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan