Takehiro Tomiyasu, leikmaður Japan, var alls ekki ánægður með eigin frammistöðu á HM í Katar.
Þessi 24 ára gamli varnarmaður spilaði með Japan í 16-liða úrslitum HM og datt þar úr leik gegn Króötum í vítaspyrnukeppni.
Tomiyasu er leikmaður Arsenal á Englandi en hann var mjög harðorður eftir tapið og kennir í raun sjálfum sér um að liðið sé á leið heim.
,,Auðvitað vorum við vonsviknir með úrslitin en mín frammistaða var stórslys og ég vorkenni liðinu,“ sagði Tomiyasu.
,,Ég þarf að vera svo miklu, miklu betri til að hjálpa liðinu. Ég gerði ekki nóg og við áttum ekki skilið að vinna. Við vorum nálægt markmiðinu. Þeir voru betri en við.“
,,Ég get ekki verið stoltur og er óánægður með niðurstöðuna. Fótboltinn getur verið svona en við þurfum að vera svo miklu betri gegn sterkum andstæðingum.“