Mist Edvardsdóttir er gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar með Benna Bó á Hringbraut. Hún mætti í settið ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs.
Þar var íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu til umræðu en liðið á fram undan úrslitaleik gegn Portúgal á útivelli um laust sæti á HM 2023.
Mist segir að þegar hún horfði á Evrópumótið á Englandi í sumar fannst henni leikur Íslands gegn Frakklandi vera besti leikur íslenska liðsins á mótinu.
„Ég væri til að sjá Söru sem djúpan miðjumann og fá Dagnýju framar. Mér fannst það virka á móti Frökkum. Sara var svolítið í því að tengja við vörnina.“
Hörður benti á það að Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands hefði viðurkennt það að hvernig liðið hélt í boltann á móti Hollandi var ekki nógu gott.
„Það kom líka í ljóst hversu mikil Karólína Lea var í þessu miðju-sóknarspili. Hún er góð í að þræða kant- og sóknarmenn í gegn, þannig það er mikil eftirsjá af því að hún sé ekki með. En ég held það sé bara góður möguleiki á þessu HM-sæti. Það væri gott næsta skref, þetta Evrópusæti er bara orðið vani þó það eigi kannski ekki að vera þannig.“