Alfreð Finnbogason, leikmaður Lyngby, mun ekki spila meira með danska félaginu á þessu ári.
Alfreð meiddist í gær er liðið mætti Viborg í efstu deild og ljóst er að hann er með brotið viðbein og verður frá út árið vegna þess.
Alfreð skrifaði undir samning við Lyngby í lok ágúst en hann kom á frjálsri sölu eftir að hafa yfirgefið Augsburg í Þýskalandi.
Búist er við að Alfreð verði frá keppni í um tvo mánuði en Lyngby á eftir að spila fimm leiki árið 2022 sem framherjinn mun ekki taka þátt í.
Þessi 33 ára gamli leikmaður hefur til þessa spilað fimm leiki með danska liðinu en á eftir að skora mark í Superligunni.
Sævar Atli Magnússon er einnig á mála hjá Lyngby og er Freyr Alexandersson þjálfari liðsins.