„Þetta var mjög erfið ákvörðun,“ segir Davíð Þór Viðarsson yfirmaður knattspyrnumála hjá FH við 433.is um þá ákvörðun sem FH og Eiður Smári Guðjohnsen tóku í dag um að hann stígi til hliðar.
Eiður var tekinn fyrir ölvunarakstur á þriðjudag, degi fyrir leik liðsins gegn ÍBV í Bestu deild karla. Liðið tapaði gegn ÍBV og situr í fallsæti þegar fjórir leikir eru eftir. Þjálfarinn fer til hliðar og Sigurvin Ólafsson tekur við
„Ég vona að þetta hafi ekki áhrif á gengi liðsins. Sigurvin tekur við liðinu og við höfum fulla trú á honum. Við hin þurfum að styðja við bakið hans og styðja við liðið í þessu verkefni. Vonandi þéttir þetta okkur saman og við fáum jákvæða orku úr þessu leiðindamáli.“
Í yfirlýsingu FH kemur fram að ef Eiður Smári nær vopnum sínum á nýjan leik geti hann snúið til baka. „Við vonum að sú vinna hans verði jákvæð eins og segir í yfirlýsingu,“ sagði Davíð.
Eiður Smári er líklega besti knattspyrnumaður í sögu Íslands en hann var að stýra FH í annað sinn á ferlinum. Hann var einnig þjálfari liðsins árið 2020.
Eiður hætti svo með FH eftir það tímabil og gerðist aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins. Samningi Eiðs við landsliðið var svo sagt upp seint á síðasta ári.
Eiður tók við FH í slæmri stöðu í sumar og hefur ekki tekist að snúa við gengi liðsins. Liðið á fjóra leiki eftir í Bestu deildinni til að bjarga sæti sínum.