Það er enginn leikmaður í Evrópu sem hefur byrjað tímabilið jafn vel og Erling Haaland, leikmaður Manchester City.
Haaland hefur skorað þrjár þrennur fyrir Man City í deildinni síðan hann kom frá Dortmund í sumar.
Norðmaðurinn gerði þrennu í 6-3 sigri á Manchester United í gær og er með 14 mörk í aðeins átta leikjum.
Ef Haaland heldur áfram að skora eins mikið og fær að spila 90 mínútur í hverjum leik þá skorar hann 56 mörk til viðbótar.
Leikmaðurinn myndi því skora 70 mörk í ensku deildinni ef honum tekst að halda áfram á sömu braut sem er þó ólíklegt enda um langt og strangt tímabil að ræða.
Markametið í deildinni stendur í 34 mörkum en Andy Cole og Alan Shearer náðu þeim áfanga á sínum tíma.
Allar líkur eru á að Haaland muni bæta þetta met en Man City á eftir að spila 30 deildarleiki á tímabilinu.
Einnig eru líkur á að Haaland endi uppi sem markahæsti leikmaður í sögu deildarinnar ef hann spilar með Englandsmeisturunum í mörg ár í viðbót.